Bökuð epli með kókosrjóma – uppskrift

Þegar sætindapúkinn læðist aftan að manni er gott að eiga til uppskrift af heilsusamlegri eftirrétt eða millimáli. Bökuð epli eru í miklu uppáhaldi hjá mér þegar ég fæ löngun í eitthvað sætt. Þessi uppskrift er afar einföld og bragðgóð en það er mjög sniðugt að eiga bökuð epli til í ísskápnum sem hægt er að grípa í á kvöldin.

Uppskrift

1 grænt eða pink lady epli
kanill eftir smekk
1/2 vanilluduft
kókosrjómi

Aðferð:

Skerið eplið niður í teninga og raðið á eldfast mót. Ég mæli með að nota Pam sprey til þess að spreyja létt yfir eldfasta mótið.
Blandið saman kanil við 1/2 tsk af vanilludufti. Magnið af kanil fer eftir smekk en ég vil alltaf hafa meira af honum en minna. Stráið blöndunni yfir eplin og hrærið vel saman svo allir eplabitarnir verði kanilhúðaðir. Bakist á 180 °C í ca 40 mínútur, athugið þó að tíminn er misjafn eftir magninu á eplunum. Mæli með að fylgjast vel með en eplin eiga að vera mjúk fremur en stökk.

Á meðan eplin eru í ofninum mæli ég með að þeyta kókosrjóma, þó svo að vel sé hægt að nota venjulegan rjóma fyrir þá sem kjósa það frekar.

Njótið vel!

xx

Ingibjörg Thelma

Skildu eftir svar