Stökkar hafravöfflur + tips

Auðvitað þarf ég að deila þessari uppskrift hér en það líður varla vika þar sem ég steiki ekki hafrabananapönnsur, ég bara virðist ekki ætla að fá leið. Eins á ég yfirleitt alltaf til í þær (banana, egg, haframjöl) svo ef það er „ekkert til“ þá á ég það til að fá mér þessar. Fyrir ekki svo löngu datt mér svo í hug að gera frekar vöfflur úr deiginu – skemmtileg tilbreyting!

Ef ég geri fyrir mig eina þá nota ég:
1/2 bolla haframjöl
banana
1 egg 
*Ef þynna þarf deigið þá nota ég smá slettu af möndlumjólk og mér finnst ómissandi að hafa vanilludropa líka (einn tappa) til að bragðbæta en það er líka gott að setja steviudropa (t.d. caramellu!).

Yfirleitt geri ég deigið í nutribullet en þá myl ég haframjölið fyrst (1 sek í nutribullet). Bæti svo banana og eggi við og hræri aftur, í nokkrar sekúndur. Deigið á að vera þykkt og vöfflujárnið heitt og smurt þegar deiginu er skellt á. Það er mjög þæginlegt að nota PAM spray (það er líka hitaeiningalaust) en svo er smjör líka alltaf solid kostur.

Uppskriftin gerir þrjár vöfflur en eins og ég segi skiptir mestu að hafa smá þykkt í deiginu, bæði þegar gerðar eru pönnukökur og vöfflur. Þá ættu þær ekki að fara í klessu.. maður hefur fengið send ófá fyndin snöpp af slíku slysi!

Ef þið eigið ekki blandara þá gengur líka að stappa bara bananann og hafa haframjölið ómulið. Þá myndi ég samt gera pönnukökur frekar en vöfflur. Ég vil líka benda á að best er að nota þroskaðan banana en (furðu) margir borða ekki banana og þá hef ég bent á að prófa að nota eplamauk í staðinn – sjálf hef ég ekki prófað það en gæti trúað að það sé gott.

Í uppáhaldi hjá mér núna er að gera vöfflurnar smá stökkar og toppa þær svo með stevia bláberjasultunni og ostsneiðum. Ef manni langar í brauð eða bakkelsi þá eru vöfflurnar frábær kostur. Bæði hollar og sjúklega góðar!

♡♡♡
Jóna Kristín

Skildu eftir svar