Sunnudagur til skipulags

Það er ágætis venja að setjast niður á sunnudagskvöldum og skipuleggja vikuna. Þá skrái ég niður hvað ég ætla að gera í vikunni; hvaða flug eru framundan, hvenær ég fer í þjálfun og svo fer ég inn á worldclass.is og skrái mig í hóptíma fyrir vikuna. Þar sem ég er í þjálfun á mánudögum, miðvikudögum og fimmtudögum hjá Indíönu þá fer ég yfirleitt í hóptíma hina dagana og þess á milli með vinkonum, Jóa eða bara með sjálfri mér og heyrnatólunum.

Undanfarin ár hef ég verið mjög dugleg að sækja hóptíma enda er úrvalið fjölbreytt og svo er gaman að geta flakkað á milli stöðva og prófa eitthvað nýtt. Ég hef prófað flesta hóptímana en eins og þeir sem fylgja mér á Instagram hafa eflaust tekið eftir þá eru Tabata tímarnir í algjöru uppáhaldi – ég fer yfirleitt til Helga í hádeginu á þriðjudögum og fimmtudögum í Kringlunni en aðstaðan þar er alveg sturluð. Á föstudögum er hann svo með tíma kl. 12 í Laugum sem ég fer líka alltaf í ef ég kemst. Tabata tímarnir eru 45 mínútur og það sem ég fíla við þá er stemningin sem myndast – góð tónlist, keyrsla allan tímann og allir að vinna á sínum hraða.

Hvað um það.. Ég er alveg frábær í að fara út fyrir efnið. Ég mæli að minnsta kosti með þeirri venju að setjast niður í nokkar mínútur á sunnudagskvöldum og skipuleggja vikuna. Þannig hef ég góða yfirsýn yfir vikuna, hvað varðar vinnu, æfingar og annað sem framundan er – og ég kem líka fleiru í verk.

♡♡♡
Jóna Kristín
Instagram: jonakristinb

Skildu eftir svar